„Okkur var vísað í stofu þar sem gamla, lasna borðið blasti við. Er ekki rétt að forsetaembættið fái aukafjárveitingu til þess að lappa upp á þetta borðskrifli? hugsaði ég, en þorði auðvitað ekkert að segja,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar í pistli á vefsvæði sínu, þar sem hann lýsir ríkisráðsfundinum þegar ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum.
„Öllum var raðað til borðs eftir kúnstarinnar reglum og forsetinn við endann. Svo upphófst ríkisráðsfundurinn sem var mikil seremónía þar sem þeir lásu hvor sína rullu, forsetinn og Bjarni, sem á fundinum varð forsætisráðherra. Ég þykist ekki vera mikið fyrir prjál af þessu tagi, en verð að viðurkenna þetta fannst mér allt mjög hátíðlegt og varð hálf klökkur, en þurfti sem betur fer ekkert að segja.
Mér varð hugsað til þess hvort maður væri ekki lentur í vitlausu leikriti. Nú sátum við þarna við endann, Guðni Th. og ég, rúmlega átta mánuðum eftir að ég spjallaði við hann og hvatti til forsetaframboðs með tilheyrandi plotti. Þá hafði hvorugur okkar nokkru sinni boðið sig fram til opinbers embættis. Svona er þetta líf skrítið.
Næst skrifaði ég undir yfirlýsingu um að ég myndi gegna embætti með guðs hjálp og hinnar helgu bókar. Það fannst mér líka skrítið, en þetta truflaði mig svosem ekkert. Á Alþingi er drengskaparheit látið nægja. Allir skrifuðu undir og þeir skiptust á línum úr kansellíinu forsætisráðherrann og forsetinn. Svo var allt búið, myndatökur og loks pönnukökur og kleinur. Betra gat það ekki orðið,“ segir Benedikt.
Og hann bætir við:
„Nú er hægt að byrja að vinna.“