Vel gengur að finna íbúum Kumbaravogs samastað, af 29 íbúum eru átta þegar farnir af heimilinu og níu til viðbótar fara á allra næstu dögum. Þeir tólf íbúar sem eftir eru fara eftir því sem rými losna á þeim heimilum þar sem þeir hafa óskað eftir að setjast að. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.
Mikill styr hefur verið undanfarið vegna lokunar hjúrkunarheimilisins Kumbaravogs en það lokar 31. mars næstkomandi. Greint hefur verið frá því að íbúar á Kumbaravogi séu sárir og kvíðnir vegna ákvörðunar heilbrigðisráðherra um að loka heimilinu, sagði 91 árs gamall íbúi það skepnuskap að tilkynna þetta milli jóla- og nýárs. Segir stéttarfélagið Báran að rúmlega 50 manns missi vinnuna við lokun hjúkrunarheimilisins.
Ákvörðunin um að loka heimilinu kom í kjölfar ítrekaðra athugasemda frá Embætti landlæknis, sem taldi rekstur hjúkrunarheimilisins ekki uppfylla lágmarkskröfur um mönnun, húsnæði, aðstöðu, tæki og búnað til reksturs heilbrigðisþjónustu og að öryggi íbúanna væri stefnt í hættu. Ekki hafi verið brugðist við athugasemdunum með viðunandi hætti og því hafi niðurstaðan orðið að loka heimilinu. Íbúar hafa hins vegar dregið þetta í efa og segja fulltrúa landlæknis ekki hafa rætt við sig, einungis forstöðumann og hjúkrunarforstjóra.
Velferðarráðuneytið segir að rekstraraðili Kumbaravogs fái greidd full daggjöld fyrir öll 29 hjúkrunarrýmin allt til þess dags sem heimilinu verður lokað, óháð brottflutningi íbúanna. Þetta er gert til þess að skapa rekstraraðilanum svigrúm til að standa við skuldbindingar sínar varðandi reksturinn, eins og laun starfsfólks.
Heilbrigðisráðherra og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar undirrituðu í byrjun september í fyrra samning um byggingu 50 rýma hjúkrunarheimilis sem rísa mun á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Samkvæmt áætlun velferðarráðuneytisins er miðað við að 35 þessara rýma leysi af hólmi eldri hjúkrunarrými en 15 þeirra mæti aukinni þörf. Í þessari áætlun ráðuneytisins var meðal annars reiknað með því að rekstri hjúkrunarheimilisins á Kumbaravogi yrði hætt á næstu misserum, enda virtist þá orðið ljóst að rekstraraðilarnir teldu sér ekki fært að reka heimilið í samræmi við kröfur þar að lútandi.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is