Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi þingmanni og ráðherra Vinstri grænna, hefur verið gert að víkja úr nefnd sem átti að skoða nýgerða búvörusamninga, en Ögmundur var skipaður í nefndina af Gunnari Braga Sveinssyni fyrrverandi ráðherra landbúnaðarmála. Hefur Gunnar Bragi gagnrýnt nýja ríkisstjórn fyrir að skipa aftur í nefndina, telur hann að talsmenn heildsala eigi ekki erindi í nefndina.
Ögmundur segir á vefsíðu sinni að honum hafi verið tilkynnt í morgun að hann eigi að víkja úr nefndinni:
Í skýringum við þá skipan í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, var mér sagt að ég hefði mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði enda komið að tengdum málum sem fyrrverandi formaður BSRB, m.a. í nefndum aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda, auk þess sem ég hefði reynslu af Alþingi og í ríkisstjórn af neytendamálum, byggðamálum og heilbrigðisþætti matvælaframleiðslunnar,
segir Ögmundur. Þar að auki hafi ekki þótt verra að Ögmundur í hliðhollur íslenskum landbúnaði og vildi efla hinar dreifðu byggðir:
Ný ríkisstjórn er sem kunnugt er fyrst og fremst ríkisstjórn verslunarinnar og þá sérstaklega stóru verslunarkeðjanna; þeirra sem dregið hafa til sín gríðarlega fjármuni í arð á sama tíma og landbúnaðurinn – sérstaklega sá hluti hans sem byggir á samvinnurekstri – hefur skilað raunlækkun til neytenda.
Þar af leiðandi hafi það verið rökrétt hjá ríkisstjórninni að fela starfsmönnum landbúnaðarráðuneytisins að hringja í Ögmund og tilkynna honum að framlag hans til fyrirhugaðarar vinnu væri ekki lengur óskað:
Hið ósagða í skilaboðum ráðherrans var að sjálfsögðu að mér væri ekki treystandi að halda á málum í samræmi við stefnu og áherslur nýrrar ríkisstjórnar.
Hvað mig varðar er hægt að taka þessum fréttum jákvætt og líta á þær sem viðurkenningu á því að litið sé svo á, að ég gæti orðið til nokkurs nýtur í nefndarstarfinu. Nema vandinn væri vitanlega svo aftur sá, að það yrði fyrir rangan málstað!
Þá er bara að fara aðrar leiðir. Menn geta látið frá sér heyra án þess að vera í nefnd!
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is