Stjórnarflokkarnir þrír koma til að með að skipta öllum fastanefndum þingsins á milli sín. Til stóð að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fimm fastaformenn, Viðreisn og Björt framtíð skiptu með sér einni formennsku og stjórnarandstaðan tvo formenn. Í viðræðum meirihluta og minnihluta um málið var meirihlutinn tilbúinn að gefa eftir eina formennsku til viðbótar með því skilyrði að Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins yrði formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Stjórnarandstaðan féllst ekki á þetta, sagði Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata það óþægilegt að meirihlutinn hafi verið að skipta sér að skipun formanna á vegum minnihlutans. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í gær að stjórnarflokkarnir hefðu verið tilbúnir að fela stjórnarandstöðunni formennsku í fleiri fastanefndum, en það hafi verið stjórnarandstöðuflokkarnir sem hafi ekki getað komið sér saman um hvað ætti að falla í hvers hlut.
Nú eru nefndirnar að koma saman og hver nefnd fyrir sig kosið formann. Stjórnarflokkarnir eru með fimm fulltrúa í hverri nefnd á móti fjórum fulltrúum stjórnarandstöðu.
Af átta fastanefndum Alþingis fara þingmenn Sjálfstæðisflokksins með formennsku í sex nefndum, Viðreisn í einni nefnd og Björt framtíð í einni. Konur fara með formennsku í helmingi nefndanna. Tveir formenn koma úr Suðurkjördæmi, en nokkur titringur var innan Sjálfstæðisflokksins með að enginn ráðherra kæmi úr kjördæminu.
Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi er formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar er 1. varaformaður og Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins 2. varaformaður.
Nichole Leigh Mosty þingmaður Bjartrar framtíðar í Reykjavík Suður er formaður velferðarnefndar. Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokks er 1. varaformaður nefndarinnar og Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks 2. varaformaður.
Valgerður Gunnarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Pawel Bartoszek þingmaður Viðreisnar er 1. varaformaður nefndarinnar og Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks 2. varaformaður.
Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi er formaður fjárlaganefndar. Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar er1. varaformaður og Theodóra S. Þorsteinsdóttir þingmaður Bjartrar framtíðar 2. varaformaður.
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er formaður atvinnuveganefndar. Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks 1. fyrsti varaformaður og Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar 2. varaformaður.
Jóna Sólveig Elínardóttir varaformaður og þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi er formaður utanríkismálanefndar. Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokks er 1. varaformaður nefndarinnar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík Norður er formaður allsherjar- og menntamálanefndar. Nichole Leigh Mosty þingmaður Bjartrar framtíðar er 1. varaformaður nefndarinnar.
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík Suður er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar er 1. varaformaður og Njáll Trausti Friðbertsson Sjálfstæðisflokki 2. varaformaður.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is