Ríkisstjórnin mælist með mun minni stuðning en aðrar ríkisstjórnir í upphafi stjórnarsetu, einungis 35%. Er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrsta stjórnin sem mælist ekki með stuðning meirihluta kjósenda við upphaf stjórnarsetu, en 56% landsmanna studdu ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna við upphaf stjórnarsetu árið 2009 og 60% landsmanna studdu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við upphaf stjórnarsetu þeirrar ríkisstjórnar árið 2013.
Samkvæmt könnun MMR mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur flokka. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 24,6% en það er 1,5 prósentustigum minna en í síðustu könnun sem lauk 10. janúar 2017. Vinstri grænir koma næst á eftir með 22,0% fylgi en það er minnkun um 2,3 prósentustig frá síðustu mælingu. Píratar mælast nú með 13,6% fylgi sem er einu prósentustigi minna en í síðustu mælingu.
Fylgi Framsóknarflokksins eykst um rúm tvö prósentustig milli kannanna, mælist flokkurinn nú með 12,5% fylgi en hann mældist 10,9% í síðustu könnun MMR. Samfylkingin er komin upp í 7% fylgi, sem er sama fylgi og Björt framtíð. Viðreisn stendur nánast í stað með 6,8% fylgi, aðrir flokkar mælast með 6,6% fylgi samanlagt.
Könnun MMR var gerð dagana 12. til 26. janúar 2017, spurðir voru 910 einstaklingar 18 ára og eldri, valdir af handahófi úr þjóðskrá.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is