„Síðastliðin átta ár hafa einkennst af bankahruninu og afleiðingum þess en nú horfum við fram á við til annarra og bjartari tíma. Mikill kraftur er í efnahagslífinu og staða ríkissjóðs fer ört batnandi. Það er því tækifæri til að hefja sókn til styrkingar á mikilvægum innviðum um leið og við búum í haginn fyrir framtíðina,“ skrifar Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, í Morgunblaðinu í morgun.
Bjarni skrifar um að lífskjör Íslendinga séu góð borin saman við kjör annarra þjóða. En leggur áherslu á að auka samkeppnishæfni landsins, bæta framleiðni og fjölbreytni í atvinnulífinu, skapa ný verðmæti og fjölga vel borgandi störfum í framtíðinni. „Ný ríkisstjórn hyggst bæta og styrkja heilbrigðisþjónustuna, draga úr kostnaði sjúklinga, efla menntakerfið og bæta samgöngur,“ skrifar Bjarni. Hann segir heilbrigðismálin vera algjört forgangsmál.
Hann segir mörg verkefni bíða en nú þegar séu mörg mikilvæg verkefni í góðum farvegi, „ný Vestmannaeyjaferja, þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna, göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar auk verkefnis um ljósleiðaravæðingu landsins.“
Sérstakur stöðugleikasjóður verður stofnaður sem mun halda utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs og geti verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið.
Bjarni telur stöðugleika á vinnumarkaði eina mikilvægustu forsendu jafnvægis og vaxtar í efnahagslífi.
Ríkisstjórnin mun starfa með aðilum vinnumarkaðarins við frekari umbætur á íslenska vinnumarkaðslíkaninu að norrænni fyrirmynd sem drög hafa verið lögð að í SALEK-samkomulaginu. Á bak við þessa títtumræddu skammstöfun stendur samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga, sem heildarsamtök launþega og Samtök atvinnulífsins standa að, auk samninganefnda ríkisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samkomulaginu er ætlað að stuðla að friði og stöðugleika á vinnumarkaði og hyggst ríkisstjórnin leggja sitt af mörkum til að efla þetta samstarf og styrkja.
Bjarni talar um hve góðu búi fráfarandi ríkisstjórn hafi skilað af sér enda ríkissjóður rekinn með afgangi undanfarin ár. „Það er því bjart yfir þjóðarbúinu og tækifærin hafa sjaldan ef nokkru sinni verið meiri til að sækja fram og auka lífsgæði allra, hvar á landinu sem þeir búa.“ Hann vill viðhalda þessum góða árangri og festa hann í sessi til framtíðar. Að lokum skrifar hann:
Til að ná árangri í þágu þjóðarinnar þarf samstillt átak. Á grundvelli þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið í stjórnarsáttmálanum mun ríkisstjórnin leita samstarfs og samvinnu við alla þá sem lagt geta lið við að bæta hag landsmanna. Takist það, getum við eftir fáein ár saman sagt: Við höfum unnið til góðs, við njótum betri lífskjara og höfum um leið búið í haginn fyrir þá sem á eftir koma.