Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hefur verið í beinu sambandi við Chelsea Manning. Þetta sagði hún í viðtali við Frosta Logason á Harmageddon í morgun. En Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, náðaði Manning í gær.
Chelsea hét Bradley áður en hún tilkynnti að hún væri kona í karlmannslíkama eða „transgender“. Hún var í bandaríska hernum í Írak árið 2010 en þá undir nafninu sem hún notaði áður. Hún stal leynilegum gögnum frá hernum og lét þau í hendur Wikileaks. Samtökin gerðu þúsundir gagna aðgengileg fréttamönnum útum allan heim. Þar kom ýmislegt misjafnt í ljós hjá bandaríska hernum í Írak. Nokkrir Íslendingar, meðal annars þau Kristinn Hrafnsson og Birgitta Jónsdóttir komu að gerð myndbands sem sýndi hvernig bandarískir hermenn réðust á fréttaljósmyndara úr þyrlu og urðu þeim að bana.
Ekki komst upp um Chelsea Manning fyrr en hún sagði Adrian Lamo, frægum hakkara, að það væri hún sem hefði stolið þessum gögnum og komið þeim til Wikileaks. Þá var Chelsea fangelsuð og var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2013.
Birgitta hefur líka verið í sambandi við annan uppljóstrara, Edward Snowden, sem er í dag frægari en Chelsea Manning. En Birgitta benti á í viðtalinu á Harmageddon að margir töluðu um að ef ekki hefði verið fyrir uppljóstranir Manning hefði Snowden ekki ljóstrað upp um þá vitneskju sem hann bjó yfir. Birgitta benti líka á að aðstæður þessara tveggja uppljóstrara væru mjög ólíkar því Snowden væri ekki í fangelsi en Manning væri ekki aðeins í fangelsi, heldur herfangelsi.
Börkur Gunnarsson gerði útdráttinn