fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Eyjan

Ekki bara hægt að kenna Kína um – vandinn liggur í hagkerfi Vesturlanda

Egill Helgason
Sunnudaginn 24. janúar 2016 12:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hagfræðingurinn Ha-Joon Chang starfar við háskólann í Cambridge, hann er höfundur bóka sem hafa farið víða um lönd – á íslensku var fyrir nokkrum árum þýdd bókin 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá. Ha Joon Chang kom í Silfur Egils 2012 – viðtalið má sé hér að neðan.

Ha-Joon Chang skrifar mjög athyglisverða grein í Guardian þar sem hann segir að ekki þýði að kenna Kína um óstöðugleika í hagkerfi heimsins, ástæðan sé fremur sú að ríkisstjórnir Vesturlanda hafi ekki lært af hruninu 2008, meintur efnahagsbati síðan þá hafi verið byggður á bólumyndun.

Það lítur út fyrir að hagkerfi heimsins sé verulega að hægja á sér. Árið byrjaði mjög illa á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum og markaðir í Evrópu og Japan hafa lækkað. Markaður í Kína stefnir lóðbeint niður. Olíuverð hefur ekki verið lægra í 12 ár.

En þetta átti ekki að vera svona. Hin viðurkennda skoðun var sú að 2016 yrði árið þegar efnahagur heimsins myndi ná sér endanlega eftir kreppuna sem hófst 208, segir Ha-Joon Chang. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum hefur minnkað, hlutabréfamarkaðurinn þar náði nýjum hæðum 2015, og nú hafa vextir í Bandaríkjunum verið hækkaðir í fyrsta sinn í níu ár.

Fyrir aftan Bandaríkin koma svo Bretland og Írland. Sagan segir að þessi ríki séu að ná sér vegna þess að þau hafa ekki farið á taugum, haldið fast við niðurskurð og önnur óvinsæl stefnumál. Þau hafi heldur ekki látið undan kröfum um að hefta bankastarfsemi og setja harðari reglur um fjármálamarkaði.

Ríki á meginlandi Evrópu myndu svo loks fylgja eftir. En hvað fór úrskeiðis?

Kína er kennt um – það gerir til dæmis George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands. Það hentar honum ágætlega að benda þangað austur, en Ha-Joon Chang hefur sínar efasemdir. Hann nefnir að þótt Kína hafi einungis verið 2,5 prósent af hagkerfi heimsins 1978 en sé núna 13 prósent, þá verði menn að gæta þess að ofmeta það ekki. Bandaríska hagkerfið (22,5 prósent), Evrusvæðið (17 prósent) og Japan (7 prósent) sé næstum helmingurinn af hagkerfi heimsins. Það sé ekki hægt að kenna Kína um efnahagsvandamál heima fyrir, ekki nema að maður búi í landi sem byggir aðallega á því að selja hrávöru til Kína.

Ha-Joon Chang segir að sannleikurinn sé sá að aldrei hafi orðið raunverulegur efnahagsbati í Bandaríkjunum og Evrópu. Samkvæmt AGS séu raunlaun lægri en var fyrir hrun í 11 af 20 ríkja sem hér um ræðir. Til að bæta gráu ofan á svart hafi efnahagsbatinn verið knúinn áfram af bólum á hlutabréfa- og húsnæðismarkaði, ekki síst í Bandaríkjunum og Bretlandi,  og þar liggi meginástæðan fyrir óstöðugleikanum. Ríkin hafi skirrst við að endurskipuleggja hagkerfi sín og þannig hunsað lærdóminn frá 2008. Skammtímauppgangur hafi verið útmálaður sem alvöru bati – í anda þeirrar goðsagnar að stórar bólur séu til marks um efnahagslegt heilbrigði.

Nú er ekki vitað hvort óróinn á markaðnum leiðir til langvinnrar niðursveiflu eða einhvers konar hruns, en hann er til marks um að við höfum eytt síðustu sjö árunum í að lappa upp á gjaldþrota efnahagsmódel, segir Ha Joon Chang. Áður en ástandið versnar enn þurfum við að ráðast í mikla endurskipulagningu: Við þurfum kerfi þar sem fjármálageririnn hefur meiri þolinmæði og er ekki svo flókinn. Við þurfum að gera endurbætur þannig að hið raunverulega hagkerfi, framleiðsluhagkerfið, fái nauðsynlega örvun, bæði hvað varðar tækni og fjárfestingu. Við þurfum kerfi þar sem dregið er úr ójöfnuði, svo hægt sé að halda uppi eftirspurn án þess að skapa meiri skuldir.

Það verður ekki auðvelt að koma þessu til leiðar, segir Ha-Joon Chang, en valkosturinn er verri – lítill hagvöxtur, óstöðugleiki og versnandi lífskjör fyrir mikinn meirihluta fólks.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar