
Það getur verið vafasamt að leggja of mikið upp úr einni og einni skoðanakönnun.
Mikið er rætt um skoðanakönnun MMR sem birtist í gær. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn kominn niður í 20 prósenta fylgi. Hefur varla verið lægri.
Menn velta fyrir sér skýringum á þessu og sumir telja sig finna þær.
Í nóvember síðastliðnum birtist skoðanakönnun í Fréttablaðinu sem var allt öðruvísi. Þar sveiflaði Sjálfstæðisflokkurinn sér verulega upp í fylgi, var með meira en 29 prósent.
Menn leituðu skýringa á því og fundu þær sumir. Mörgum orðum var eitt á þetta – til óþarfa kom síðar í ljós. Miðað við aðrar kannanir var þetta frávik. Hið sama gæti verið að gerast hjá MMR.
Gallup mælir fylgi stjórnmálaflokka mánaðarlega og birtir í Þjóðarpúlsi sínum. Þar hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins verið nokkuð stöðugt á bilinu 24-25 prósent síðan í haust. Í síðustu könnun sem birtist í upphafi þessa mánaðar var það 25 prósent.
Þetta er náttúrlega langt frá hinu gamla fylgi Sjálfstæðisflokksins og líka miklu minna en fylgið var undir lok síðasta kjörtímabils. Síðustu mánuðina fyrir kosningarnar 2013 færði stór hópur kjósenda sig frá Sjálfstæðisflokknum yfir til Framsóknarflokksins. Þá hrundi Sjálfstæðisflokkurinn á stuttum tíma úr meira en 35 prósentum í skoðanakönnunum, og þótti góður að enda í 26 prósentum í kosningunum.
Þessir kjósendur hafa ekki skilað sér aftur – og þeir virðast líka hafa yfirgefið Framsóknarflokkinn. En það þarf fleiri kannanir til að hægt sé að staðhæfa að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn enn neðar. Það er samt aldrei þægilegt fyrir flokk að fá svona mælingu og hún getur á sinn hátt verið mótandi.