Lesandi síðunnar sendi mér eftirfarandi sögu.
Hún segir frá því að Jónas frá Hriflu, þá ráðherra, gekk Lækjargötu og tók eftir tveimur kvistum sem höfðu verið settir á hús Menntaskólans í Reykjavík. Jónasi fannst kvistirnir ljótir. Nokkru síðar hófust framkvæmdir við skólann og kvistirnir voru teknir burt.
Um þetta skrifar Heimir Þorleifsson sagnfræðingur í 3. bindi af sögu Menntaskólans.
Skal getið eins lítils atriðis sem sýnir hversu grannt ráðherrann fylgdist með öllum hlutum. Í skýrslu um nokkrar framkvæmdir ríkisins 1927-1930 (Verkin tala), sem Jónas hefur að líkindum skrifað að verulegu leyti sjálfur, segir:
„Menntaskólahúsið var byggt um 1850 í dönskum stórbæjarstíl — húsið er enn traust og rammbyggilegt, — Um síðustu aldamót hafði útliti þess verið stórspillt með því að setja á það tvo litla kvisti, til hliðar við aðalkvistinn, er verið hafði frá byrjun og sómdi sér vel. En þessir litlu kvistir lýttu húsið eins og vörtur á fögru andliti. Við þessa allsherjarviðgerð voru aukakvistirnir teknir burtu. Þannig að stíll hússins er nú hreinn eins og hann var upprunalega.“
Sagan segir að Jónas hafi hringt til Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, og sagt honum að kvistirnir yrðu að fara. Þeir hafi síðan verið teknir af eftir örfáa daga. Það var ekki verið að setja málin í nefnd í tíð Jónasar frá Hriflu.
Á þessari ljósmynd má sjá Menntaskólann með kvistunum sem voru fjarlægðir.