fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Eyjan

Gamaldags að vitna í séreignarstefnuna

Egill Helgason
Mánudaginn 25. janúar 2016 21:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður heyrir að margir Sjálfstæðismenn eru á móti húsnæðisfrumvörpum félagsmálaráðherra í nafni séreignarstefnunnar.

Nefnd stefna var lengi ær og kýr Sjálfstæðisflokksins. Hún gekk út að að fjölskyldur skyldu koma sér upp sínu eigin húsnæði undireins og færi var á – en eyða svo stórum hluta ævinnar í að borga það uns væri farin að myndast eign.

Það var talið líklegra að þeir sem ættu eitthvað kysu Sjálfstæðisflokkinn. Leigumarkaður var eiginlega ávísun á kommúnisma.

En við lifum á breyttum tímum. Miklu fleiri búa einir en áður – fjölskyldan er ekki sama grunneiningin og var – sumir eru einhleypir, aðrir fráskildir. Sumir hafa kannski ekki áhuga á að búa á sama stað nema stuttan tíma, enda er vinnumarkaðurinn miklu opnari en var. Það er meira að segja hægt að pendla í vinnu milli landa.

Svo er náttúrlega hitt að þótt fólk festi sér húsnæði með kaupsamningi, þá er ekki þar með sagt að það eignist það. Verðtryggð lán eru til 40 ára, mörgum endist ekki ævin til að borga þau. Eignamyndunin er mjög hæg í landi þar sem eru svo háir vextir og í kerfi verðtryggingar verður hún ekki fyrr en undir lok lánstímans.

Í bóluástandi myndast náttúrlega eign í húsnæði, að minnsta kosti sums staðar, en eins og reynslan sýnir, þá hjaðna bólurnar líka. Kæmi ekki á óvart þótt slíkt gerðist á Íslandi eftir nokkur ár. Að sumu leyti er það að kaupa íbúð eins og að taka þátt í spákaupmennsku.

Við lifum í hagkerfi þar sem skuldsetning eykst stöðugt – þar sem skuldsetningin er í raun ein forsenda efnahagslífsins, þar sem almenningur kemst varla hjá því að steypa sér í skuldir og fjármálastofnanir fá æ meiri völd. Þetta getur ekki talist heilbrigður efnahagur. Eitt stæsta verkefni stjórnmála á Vesturlöndum ætti að vera að minnka skuldirnar, ekki auka þær.

Leigumarkaður á Íslandi er auðvitað mjög ófullkominn og ekkert í líkingu við það sem gerist í nágrannalöndum þar sem fólk getur komist í trausta leigu – jafnvel út ævina. Þetta tíðkast meira að segja í samfélögum sem teljast kapítalísk. Hér á Íslandi leigja menn vegna þess að þeir neyðast til, hafa ekki tækifæri til annars, og réttindi leigjenda eru lítil. Eitt markmið húsnæðisfrumvarpanna er að bæta úr þessu.

En leiga á líka að vera möguleg fyrir þá sem ekki kæra sig um að kaupa húseign. Valkostirnir þurfa að vera fyrir hendi, bæði að leigja og kaupa. Það er satt að segja voða gamaldags að vitna í séreignarstefnuna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar