
Það er mikil dramatík í grískum stjórnmálum. En hið stóra nei er að kalla fram samstöðu meðal Grikkja sem kemur nokkuð á óvart. Stjórnmál hér eru mjög hatrömm og heift milli fylkinga. Það er jafnvel talað um að þjóðstjórn gæti verið í burðarliðnum.
Alexis Tsipras er búinn að reka fjármálaráðherrann, Yannis Varoufakis – þótt hann hafi fengið færi til að segja af sér fyrst. Þetta er ekki bara sökum þess að ráðamenn í Evrópu eiga erfitt með að höndla Varoufakis, semsagt friðþæging, heldur vegna þess að Varoufakis sagði í viðtali við Daily Telegraph að Grikkir gætu farið að gefa út einhvers konar skuldaviðurkenningar í næstu viku.
Þá var Tsipras nóg boðið – samband hans og Varoufakis hefur verið fremur stirt.
Nú er jafnvel talað um þjóðstjórn í Grikklandi, formenn annarra flokka eru að fylkja sér að baki Tsipras og tillögum sem hann mun leggja fyrir Evrópusambandið. Tíminn er naumur, því gríska banka- og greiðslukerfið er við það að falla alveg saman.
Antonis Samaras, formaður gríska Sjálfstæðisflokksins, Nea Demokratia, studdi já-ið, hann er nú búinn að segja af sér. Nea Demokratia styður nú Tsipras, sem og gamli sósíaldemókrataflokkurinn Pasok og evrópusinnaði miðjuflokkurinn Potami.
Tveir flokkar eru svo á hliðarlínunni, gamli kommúnistaflokkurinn KKE og hægriöfgaflokkurinn Gyllt dögun.