
Sem betur fer virðist málstaður Grikkja njóta skilnings hjá mörgum stjórnmálamönnum á Íslandi. Hér í Grikklandi eru líka margir sem vitna í atkvæðagreiðslur Íslendinga um Icesave og segja að þær hafi verið innblástur.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sendi Grikkjum ágæta stuðningskveðju í gær.
Og Össur Skarphéðinsson, sem er öllum hnútum kunnugur hjá ESB eftir langa veru í utanríkisráðuneytinu, talaði af mikilli skynsemi í Morgunútgáfunni á RÚV í morgun. Össur segir að kominn sé tími til að lánardrottnar blæði:
Það er ekki hægt að bjarga Grikklandi öðruvísi en að þeir skeri verulega af sínum skuldum. Grikkland hefur tvær leiðir til þess að velja um núna, að halda áfram innan evrunnar eða taka hreinlega upp drökmuna. Það er alveg ljóst, eins og Varoufakis, sem var að segja af sér, og Tsipras forsætisráðherra sögðu; þetta er ekki kosning um evruna. 75% Grikkja vilja halda evrunni. Ef þeir vilja vera innan evrunnar þá eru lög ESB þannig að það er ekki hægt að sparka þeim út.
Össur telur upptaka drökmu í Grikklandi sé afar vondur kostur og myndi leiða til mikilla hörmunga, þarna sé líka spurning um virðingu og álit Evrópusambandsins sjálfs:
Ef þeir yrðu knúðir til að taka upp drökmuna þá myndi það leiða til slíks álags á lífskjör ofan á allt annað að það er ekki kostur í stöðunni. Þannig að ef að ESB ætlar ekki að verða fyrir enn meiri álitshnekki en það hefur þegar orðið fyrir, þá verður það að knýja lánardrottnana, sem aðallega eru alþjóðlegar stofnanir, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópusambandið sjálft, Evrópski seðlabankinn og síðan franskir, en aðallega þýskir bankar. Þetta er nokkuð sem Þjóðverjar verða að skilja. Ef að þeir vilja standa yfir höfuðsvörðum þessa kerfis, þá guð hjálpi þeim.