

Menn hafa verið að fagna því að Debbie Harry á afmæli. Hún er orðin sjötug. Debbie var fígúra í nýbylgjusenunni í New York undir lok áttunda áratugarins. Söng með hljómsveitinni Blondie – sem átti nokkra smelli. Debbie hafði sinn söngstíl, fremur litla rödd, í henni er ákveðinn sönglandi – svona eins og hún sé hérumbil fölsk.
Úr þessu má kannski lesa að ég hafi ekki verið neinn sérstakur aðdáandi. Það er voða lítið í þessari tónlist sem er hlustandi á núorðið.
Á móti þessu ætla ég að benda á tónlistarsnilling sem hefði orðið sextíu og fimm ára í mars. Hún var einungis 32 ára þegar hún dó. Þetta er Karen Carpenter. Einhver besta söngkona í gjörvallri sögu dægurtónlistar – með einstaka innilega tilfinningu, angurværð sem er engu lík, og í ofanálag var hún frábær trommari. Það er reyndar sagt að hún hafi miklu fremur viljað tromma en að vera syngjandi fremst í sviðsljósinu.
Það varð henni að fjörtjóni, hún varð svo heltekin af vaxtarlagi sínu að hún dó úr lystarstoli árið 1983.
Tónlist The Carpenters er einstaklega vel samin og flutt – en það er Karen sem gerir gæfumuninn með söng sínum. Fleytir þeim upp í flokk sígildrar dægurtónlistar.
Um leið skal ég viðurkenna að ég er óforbetranlegur sentimentalisti – það sem er vel væmið og viðkvæmt höfðar miklu meira til mín en það sem er hip og kúl.
Þó verður líklega að viðurkennast að hvað varðar hvað varðar klæðaburð og tísku voru Carpenters ekki í fremstu röð.