

Það er merkilegt að finna hversu langt við erum að þokast í átt til fasisma – á tíma þegar ríkir velmegun, það er ekki eins og efnahagskreppan 2008 hafi verið eitthvað í líkingu við 1929, en þá reis fasisminn ógnarhratt.
En sú tilfinning að við lifum á mjög óöruggum tímum ágerist – það er mikið rannsóknarefni hver er þáttur frétta- og samskiptamiðla í að magna þetta upp.
Maður skynjar þetta helst með því að fylgjast með því hvernig mörk þess sem þykir boðlegt færast til.
Í Bandaríkjunum eru forsetaframbjóðendur farnir að tala um að meina öllum sem eru múslimatrúar að koma til landsins. Við höfum ekki upplifað það enn, en kannski eigum við eftir að komast að því hversu stutt er úr þessum málflutningi yfir í að elta uppi múslima, reka þá burt eða loka inni í fangbúðum.
Forsetaframbjóðendur eins og Donald Trump og Ted Cruz boða líka hugmyndir sem fela í sér hreina stríðsglæpi – um að gereyða heilu landsvæðunum með sprengjuárásum, jafnvel þótt að þar myndu farast saklausir borgarar, kannski mörg hundruð þúsund manns.
Ekki einu sinni á tíma Vietnamstríðsins komust menn varla upp með að tala svona. Þeir voru altént hæddir og spottaðir fyrir. Þetta er fóðrað með hættunni á að Bandaríkjamenn verði fyrir hryðjuverkum. Ef tölfræði er skoðuð er hún nánast engin – það eru miklu meiri líkur á að byssuóður nágranni taki sig til og fari að skjóta allt kvikt.
Í Danmörku er ríkisstjórnin með áform um að taka fé, verðmæti og skartgripi af flóttamönnum sem koma til landsins. Fyrst hélt maður að þetta væri svartur húmor, nei, en svo er ekki. Dönum er alvara með þessu.
Aftur komum við að velmeguninni – spurningunni um hvernig menn geta látið sér detta svonalagað í hug á velmegunar- og friðartímum? Í Danmörku drýpur smjör af hverju strái, varla nokkurn tíma í sögunni hefur verið til samfélag þar sem almenningur hefur það svo gott. Á tíma uppgangs fasisma, nasisma og kommúnisma á fyrri hluta tuttugustu aldar hafði fólk í Evrópu gengið í gegnum blóðugar styrjaldir, hungur, götubardaga og skelfilega upplausn. Ekkert slíkt er raunin nú, atburðir síðustu ára í álfunni eru smáir í sniðum miðað við þetta.
Samt upplifir fólk þessa tilfinningu ótta og öryggisleysis – sem aftur birtist í svona fáránlegum, jú og hræðilegum hugmyndum eins og að taka aleiguna af flóttafólki.

Trump og Ted Cruz tala opinskátt um að hryðjuverkum verði svarað með skelfilegum stríðsglæpum en Danir vilja fara að hirða aleiguna af flóttafólki.