

Mig langar að kynna grjótgarðinn sem er við húsið hjá mér. Ég hef á tilfinningunni að hann gæti jafnvel verið afi grjótgarðsins sem er nú verið að vernda með ærnum tilkostnaði. Ég fullyrði samt ekki að minn grjótgarður sé 500 milljóna króna virði, en hver veit.
Húsið er byggt 1856, ég veit ekki nákvæmlega hvenær garðurinn var reistur, en til er ljósmynd af húsinu frá 19. öld og þar nær garðurinn meðfram framhliðinni. Nú er einungis eftir hlutinn sem snýr til suðurs – hann er dálítið ójafn en fallega mosavaxinn.
Gæti jafnvel verið elsta mannvirki sinnar tegundar í bænum. Ég hef stundum haft áhyggjur af að hann kunni að falla – einhvern daginn kemur kannski að því. En gott er að vita af áhuga yfirvalda á grjótgörðum.

