

Maður heyrir af hverri kvikmyndinni af annarri sem er lýst sem snilldarverki. Erum við að upplifa gullöld í kvikmyndagerð? Meira að segja ný Star Wars mynd er að fá frábæra dóma sem kvikmyndaverk – um fyrri myndirnar mætti kannski segja að séu frekar menningarfyrirbæri en eiginleg kvikmyndalist. Slík fullyrðing gæti þó vakið heitar tilfinningar.
Tarantino sýnir enn hvað hann er frjór og frumlegur í myndgerð sinni í The Hateful Eight. Þetta er morðgáta sem gerist í Wyoming – þarna er að finna tilvísanir í Agötu Christie þótt myndin sé vestri. Myndinni er lýst sem þriggja tíma meistaraverki í Guardian.

Spotlight eftir leikstjórann Tom McCarthy hefur þótt einna líklegust til að hreppa Óskar í vetur. Þetta er mynd sem fjallar um það hvernig dagblaðið Boston Globe afhjúpaði kynferðisglæpi presta innan kaþólsku kirkjunnar gagnvart drengjum.

Carol er mynd eftir Todd Hynes, byggð á sögu Patricia Highsmith. Cate Blanchett leikur aðalhlutverkið, myndin gerist á sjötta áratugnum og segir frá ungri konu sem vinnur í stórverslun í New York en verður ástfangin af glæsilegri og vel stæðri konu sem er nokkuð eldri en hún.

Brooklyn gerist líka í New York eins og nafnið gefur til kynna og tíminn er líka sjötti áratugurinn. Saoirse Ronan leikur unga konu sem flytur frá Írlandi til Bandaríkjanna og fellur fyrir ungum manni af ítölskum ættum. Leikstjórin er John Crowley, skáldsagnahöfundurinn Nick Hornby skrifar handritið en myndin er byggð á sögu eftir írska höfundinn Colm Tóibín.

Svo má nefna The Revenant, en leikstjóri hennar er Alejandro Inarritu, höfundur Óskarsverðlaunamyndarinnar Birdman. Leonardo DiCaprio leikur þarna landkönnuð á tíma villta vestursins – hann leitar hefnda gegn mönnum sem skildu hann eftir þegar bjarndýr réðist á hann. Sagt er að þetta sé eitt magnaðasta hlutverk DiCaprios sem á köflum talar indíánamál í myndinni.

Þetta eru myndir sem enn hafa ekki verið sýndar í kvikmyndahúsum á Íslandi. Við þær má bæta myndum eins og Room og The Big Short – hún fjallar um kauphallarsvindl á árunum fyrir hrun. Við höfum fengið að sjá The Martian, Sicario, The Walk, Bridge of Spies og náttúrlega Everest. Þessar myndir verma þó tæplega toppsætin. Mikið hefur verið látið með endurgerð af Mad Max – en sá sem hér skrifar gafst upp um miðja mynd, sá bara sama bjánalega draslið, upphitað og enn lélegra en það gamla.
Þá má geta þess að nokkrar líkur eru taldar á að Hrútar eftir Grím Hákonarson fái Óskarstilefningu.
Loks er hægt að nefna kvikmyndaverk sem er bæði frumlegt og frábært – það er önnur þáttaröðin af Fargo. Síðasti þátturinn var sýndur í Bandaríkjunum fyrr í vikunni. Þar hefur myndheimur Cohen-bræðra verið víkkaður út í sjónvarpi með sínum furðulegu persónum, sérstæðum illmennum, fólki sem verður glundroða að bráð og svo góða fólkinu sem reynir að halda heiminum saman.
