

Í nýrri bók Jóns Gnarr, Útlaganum, segir höfundurinn frá því að hann hafi oft spilað Útvegsspilið þegar hann var unglingur og þótt það afar skemmtilegt. Jón var nörd, eins og margoft hefur komið fram, og mér skilst á textanum að hann hafi jafnvel spilað Útvegsspilið við sjálfan sig.
Eins og segir á vefnum Boardgamegeek hefði Útvegsspilið ekki getað orðið til í öðru landi en á Íslandi. Þátttakendur eiga að kaupa skip, veiða fisk og byggja frystihús.
Spilið er frá 1977 og það er erfitt að verjast þeirri hugsun að Útvegsspilið hefði orðið miklu áhugaverðara eftir að kvótakerfinu var komið á 1984 og einkum þó eftir að framsal á kvóta var heimilað 1990 og farið var að veðsetja óveiddan fisk. Þá var flækjustigið orðið miklu hærra og ennþá meira í húfi.

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei spilað Útvegsspilið og ekki heldur spilið hérna að neðan – það virkar ekki síður skemmtilegt.
Þetta er Kjördæmaspilið sem mun hafa komið á markað 1959. Myndirnar á kassanum gefa í kynna hvílík skemmtun er í boði. Þarna eru myndir af körlum, nokkrum helstu stjórnmálaleiðtoga áranna eftir stríð.
Má bera kennsl á Hermann Jónasson, Emil Jónsson, Ólaf Thors, Bjarna Benediktsson, Einar Olgeirsson, Eystein Jónsson og Guðmund Í Guðmundsson – og svo er þarna einn sem ég kem ekki fyrir mig.
Mér skilst að í spilinu sé að finna texta eins og þennan:
Þér missið tvö þingsæti í kjördæminu vegna áróðurs andstæðinganna.

Ætli sé markaður fyrir að endurútgefa kjördæmaspilið með þingmönnum nútímans?