
Almennt er ég hlynntur því að breyta götum í miðbæ Reykjavíkur í svæði fyrir gangandi fólk. Sýnist reyndar einsýnt að slíkt sé nauðsynlegt yfir hásumarið – þá er oft slíkur mannfjöldi í bænum að fer varla saman gangandi umferð og akandi.
Það verður hins vegar að segja að lokun Laugavegs og Skólavörðustígs nú í desember er ekki vel heppnuð. Nokkur atriði koma þar til.
Í gríðarlegu vetrarverðri um daginn var þessum götum lokað, þá voru þær í raun hinar einu á svæðinu sem voru greiðfærar. Afleiðingin var sú að bílaumferð tróðst út í nær ófærar götur í Þingholtunum þar sem ríkti hálfgert öngþveiti fyrir vikið.
Þetta virkaði mjög vanhugsað.
Um helgina fóru nokkrir kaupmenn við Laugaveg að gera uppreisn gegn lokununum, þeir spenntu upp hlið sem loka götunum. Ég ætla ekki að taka málstað þeirra, en staðreyndin er sú að umferðin um Laugaveginn um helgina var ekki mikil. Þetta voru aðallega ferðamenn – en fjöldi þeirra er þó ekki mikill á þessum tíma árs.
Staðreyndin er nefnilega sú að jólaverslun er að miklu leyti horfin úr miðbænum. Þar eru veitingahús, jú og nokkrar bókaverslanir og fata- og skartgripabúðir. Veitingahúsin draga til sín fólk á kvöldin, í búðunum er ekki nein örtröð – ekki heldur þótt séu að koma jól.
Bætir heldur ekki úr skák að bærinn er illa upplýstur í svartasta skammdeginu. Ljósastaurarnir sem hafa verið settir niður í bæ lýsa illa – þeir bila ótt og títt og sums staðar vantar perur. Það er meira að segja ákveðin tregða að gera við götulýsinguna. Við búum í vetrarborg og lýsingunni er mjög ábótavant.
Það hefði sjálfsagt verið frábær stemming í bænum ef hefði verið fjöldi kaupglaðra Íslendinga að ganga um göturnar, en svo var í raun ekki. Má vera að svoleiðis verði þetta þegar dregur nær jólunum. En það vantaði bara fólkið – þetta var fremur eins og fáar hræður að paufast í rökkrinu.