
Fyrstu fréttir virðast benda til þess að Grikkir hafi sagt stórt NEI. Og að ekki sé eins mjótt á mununum og margir höfðu talið.
Kannski var fljótfærni í Tsipras forsætisráðherra að boða til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu, en niðurstaðan ætlar að verða ótvíræð. Það er gott að hún sé afdráttarlaus.
Grikkir voru heldur ekki að segja nei við evrunni, heldur við tilboði frá Troikunni sem var algjörlega óásættanlegt. Gerði ekki ráð fyrir neinni skuldaniðurfellingu, líkt og AGS segir að sé nauðsynleg, heldur einungis áframhaldandi niðurskurði og þjáningum. Sjúklingnum skal enn látið blæða – í þeirri furðulegu von að hann hjarni. En auðvitað var tilboðið ekki gert í góðri trú.
Það hefði verið niðurlægjandi fyrir Grikki að segja já – og ég held að margir sem hafi greitt atkvæði á þann veg hafi gert það með óbragði í munninum. Eitt stærsta blaðið hérna hvatti kjósendur til að segja já – en sagði um leið að Evrópa ætti að skammast sín.
Nú kemur í ljós hvað er varið í Evrópuhugsjónina og hvort lýðræði í Evrópu er einhvers virði. Þjóðverjum hefur ekki tekist að losna við Tsipras, eina ráðið er að búa til viðunnandi samning fyrir Grikkland sem getur leitt landið aftur á braut vaxtar. Það er bæði Evrópu og Grikkjum í hag.