

Maður spyr hvernig hægt sé að láta sér detta í hug að byggja hús sem lítur svona út í hjarta Miðbæjarins, við sjálfa Lækjargötu, rétt hjá Tjörninni?
Þetta er vinningstillaga í samkeppni um nýtt hótel.
Skýringin er líklega nokkuð einföld – eins og þegar nýbyggingar eiga hlut núorðið er fyrst og fremst hugsað um nýtingarhlutfallið, að byggja út í hvern rúmentimetra sem er leyfilegur. Og hafa það helst ódýrt.
En samt – þetta gengur eiginlega ekki. Þarna er ekkert tillit tekið til hverfisins, sögu eða samræmis. Þetta hús væri sjálfsagt ágætt í Borgartúninu eða í Smárahverfinu.
En ferðamenn geta kannski komið í Miðbæinn, búið í svona kassa og horft á hin örfáu gömlu hús sem eru eftir.
Snjöll kona sem skrifar á Facebook segir að teiknistofan sem ber ábyrgð á þessu heiti Gáma Klín. Það eigi að klína þessum gámi í Lækjargötuna.
En nú er spurning, hefur borgarstjórnin í Reykjavík ekkert vald til að grípa inn í á fagurfræðilegum forsendum – til þess einfaldlega að afstýra slysum?

Þetta er mynd af hinu fyrirhugaða hóteli í Lækjargötu. Hvað er loftbelgurinn annars að gera á myndinni? Hvaða þýðingu hefur hann? Er hann til að draga athyglina frá byggingunni?