

Örlög gríska sósíaldemókrataflokksins PASOK er mjög athyglisverð – þau segja sína sögu um hvernig stjórnmál geta þróast í kreppu, og kannski eru þau líka lærdómsrík fyrir stjórnmálaöfl á Íslandi.
PASOK var stofnaður 1974 af Andreas Papandreou, þeim litríka stjórnmálamanni, þetta var strax í kjölfar herforingjastjórnarinnar sem ríkti í Grikklandi í sjö ár. 1981 vann PASOK meirihluta á gríska þinginu, Papandreou varð forsætisráðherra. Hann þótti mikill ræðumaður, hann var oft ásakaður um lýðskrum, en á veldistíma flokks hans byggðist upp velferðarkerfi sem Grikkir voru mjög ánægðir með.
Höfuðandstæðingur PASOK í stjórnmálum var Nea demokratia, Nýtt lýðræði, beiðfylking hægri manna sem er ekki ósvipuð Sjálfstæðisflokknum hér heima – nema hvað hún er evrópusinnuð.
Papandreou ætlaði reyndar fyrst að ganga úr bæði Evrópusambandinu og Nató, en svo snerist honum hugur, en hann notaði samningsaðstöðu Grikkja til hins ítrasta og peningum frá Evrópu var dælt inn í Grikkland eins og enginn væri morgundagurinn.
Í þetta skipti var PASOK í rikisstjórn til 1989. Flokkurinn komst aftur til valda 1993, undir forystu Papanderous, sem þá var orðinn gamall og mistækur og flæktur í hneykslismál. 1996 tók við Costas Simitis. Sá var allt öðruvísi en Papanderou, virkaði tæknikratalegur, og boðaði nútímavæðingu í flokknum. Simitis var forsætisráðherra til 2004.
Þá komst Nea demokratia aftur til valda. Þeirri valdatíð lauk með algjöru hruni gríska hagkerfisins. Hagtölur höfðu verið falsaðar, hallinn á ríkinu var óbærilegur.
Þótt Nea demokratia hafi átt ríkisstjórn hrunsins, þá var ekki hægt að fullyrða að PASOK væri saklaus. Hann hafði átt sinn þátt í að byggja upp hið ósjálfbæra og spillta kerfi sem riðaði til falls.
Rétt áður en hrunið varð hafði PASOK reyndar komist til valda aftur, þá undir stjórn Georgs Papandreou, sonar Andreasar. Hann er allt öðruvísi maður, kann ekkert í lýðskrumsbrögðum pabbans. En Papandreou missti tökin, hann hvarf af vettvangi, og eftir tvennar kosningar komst Nea demokratia aftur til valda, nú leiðir þessi hægri flokkur ríkisstjórn en með stuðningi gömlu fjendanna í PASOK.
Samkvæmt nýjum skoðanakönnunum ætlar Nea demokratia að lifa þessa átakatíma af. Flokkurinn er með 25 prósenta fylgi sem er þokkalegt í ljósi ástandsins.
En PASOK virðist vera búið að vera. Flokkurinn fær ekki nema 6,5 prósent í áðurnefndri skoðanakönnun. Maður sér varla að flokkurinn lifi það af í núverandi mynd. Í staðinn er vinstriflokkurinn Syriza búinn að taka við sem leiðandi afl á vinstri vængnum. Hann heldur uppi harðri stjórnarandstöðu og mælist með 27,5 prósenta fylgi.
Meira að segja nýnasistaflokkurinn Gullin dögun er stærri en PASOK, með 11 prósenta fylgi. Það er hrollvekjandi.

Andreas Papandreou, stofnandi PASOK, heillaði stuðningsmenn sína á löngu tímabili. Hann hallaðist oft í átt til lýðskrums en í leiðinni byggði hann upp velferðarkerfi í Grikklandi. Það hefði þó varla verið hægt án stuðnings frá Evrópu. En nú virðist PASOK vera í andaslitrunum.