

Þessi mynd birtist á síðu sem nefnist Mótmælum mosku á Íslandi.
Þar birtist margt furðulegt og fáránlegt – og ekki allt undir nafni.
En með myndinni stendur.
„Þetta er það sem hinn helsjúki íslamski hugsunarháttur og heilaþvottur framleiðir.“
Túlkunin var sú að þarna væri verið að ata kristna menn blóði.
Glöggur maður fór að skoða myndina.
Hann komst að því að hún sé frá Kazhakstan. Þarna er töfralæknir – shaman – að framkvæma einhvers konar hreinsunarathöfn. Fólkið undirgengst hana af fúsum og frjálsum vilja. Íslam er þetta örugglega ekki, kannski eitthvað fornara.
Við sjáum að sauðkindin leikur hlutverk í þessari athöfn. Á Íslandi er átrúnaður á sauðkindina einnig mjög útbreiddur.
En eins og bent er á, þá er í raun bara ástæða til að kenna í brjósti um kindina – aðrir taka þátt sjálfviljugir.
