
Ég hef ekki á tilfinningunni að ríkisstjórnin falli á þessu ári. Til þess er of mikið í húfi fyrir stjórnarflokkana. Geir Haarde og Þorgerður Katrín þurfa að standa og falla með þeirri ákvörðun að taka upp samstarf við Samfylkinguna. Samfylkingin þarf að sýna að hún sé traustsins verð – að hún sé ábyrgur flokkur í ríkisstjórn.
Óvissan er meiri hjá stjórnarandstöðunni. Hún hefur þrjá leiðtoga sem allir standa tæpt. Guðjón Arnar virkar áhugalaus – bak við hann togar Jón Magnússon í eina átt og Kristinn H. Gunnarsson í aðra.
Það blasir við öllum að Svandís Svavarsdóttir – maður ársins á Rás 2 (þar sem þeir kjósa alltaf vinstrimenn) – yrði öflugri foringi VG en Steingrímur. Steingrímur stofnaði flokkinn, er að vissu leyti eigandi hans, verður aldrei settur af gegn vilja sínum, en Svandís yrði miklu skæðari ógn við Samfylkinguna en hann. Samfylkingin er algjörlega búin að kortleggja Steingrím; þakkar eiginlega fyrir hvern dag sem hann situr áfram á formannsstóli.
Í Framsóknarflokknum eru í uppsiglingu skæð átök sem snúast ekki bara um persónur heldur líka málefni. Guðni og Bjarni eru fluttir með flokkinn upp í sveit; Björn Ingi telur ekki fullreynt með að gera úr honum frjálslyndan evrópusinnaðan flokk á mölinni. Guðni lét skrifa um sig heila ævisögu til að marka sér stöðu sem formaður flokksins. Ég bíð eiginlega eftir því að höfundur bókarinnar, Sigmundur Ernir, snúist á sveif með Guðna og fari í framboð fyrir Framsókn. Svo mjög samsamar Sigmundur sig viðfangsefninu.
Ég missti af Kryddsíldinni þetta árið. Það er ákveðinn vandi við þennan þátt að flokksforingjarnir fimm hafa enga ánægju af því að tala saman; þau eru í raun dauðleið hvert á öðru. Það er dálítið eins og vanti ferskt blóð í þetta.