
Í Kiljunni í kvöld fjöllum við um bókina sem mátti ekki gefa út – það eru minningar Þórðar Sigtryggssonar organista, vélritaðar af Elíasi Mar. Nokkrar sögur hafa farið af þessu riti, það átti að vera fullt af klámi og níði um nafntogaða menn, handritið gekk manna á meðal og er sagt að Halldór Laxness hafi lesið upp úr því til gamans – en nú er það loks komið út hjá forlaginu Omdúrman. Bókin hefur fengið nafnið Mennt er máttur, tilraunir um dramb og hroka.
Við fjöllum um ævisögu Bjarna Þorsteinssonar þjóðlagasafnara, en hana skráir Viðar Hreinsson.
Gísli Rúnar Jónsson kemur í þáttinn og segir með sínu einstaka lagi frá bók eftir sig sem nefnist Ég drepst þar sem ég sýnist, en hún inniheldur sögur af leikurum og fólki sem er svíðsljósinu – í spjalli okkar koma meðal annarra við sögu Ævar Kvaran, Svavar Gests, Rúrik Haraldsson og Jónas Jónasson.
Kolbrún og Páll Baldvin fjalla um Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur, Nóvember 1976 eftir Hauk Ingvarsson, Úr þagnarhyl, ævisögu Vilborgar Dagbjartsdóttur eftir Þorleif Hauksson og Með sumt á hreinu, sögu Jakobs Frímanns Magnússonar sem Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir hefur skráð.
En Bragi segir frá Sigurði Berndsen og Jóhannesi Birkiland.
Kápan að bók Þórðar Sigtryggssonar og Elíasar Marar. Þórður var einn fyrsti Íslendingurinn sem fór ekki í launkofa með að hann var samkynhneigður.