

Eitt sinn hitti ég náunga sem var umboðsmaður fyrir Rolling Stones. Það vildi svo til að ég hafði meðferðis safnplötu með lögum Joni Mitchell sem sem ég var nýbúinn að kaupa – Hits heitir hún.
Stones umboðsmaðurinn sagði fýlulega að Joni Mitchell hefði nú aldrei átt nein hits.
Jæja, sagði ég, kannski – en síðasti hittari Rolling Stones var sirkabát árið 1978.
Nú er Joni Mitchell að senda frá sér plötu. Eftir að hafa yfirgefið tónlistarbisnessinn fyrir nokkrum árum, skellt á eftir sér hurðum og kallað hann forarvilpu.
Joni er frábær lagahöfundur og flytjandi, ekki bara góð söngkona heldur líka snilldar gítarleikari – ég sé það í iTunes hjá mér að af hundrað mest spiluðu lögunum eru átta með henni. Fyrir utan hvað hún var glæsileg, sjálfstæð og flott þegar hún spratt fyrst upp úr Kaliforníu-senunni í kringum 1970.
Þá beygðu menn sig í lotningu fyrir henni líkt og David Crosby og Eric Clapton á myndinni hér að ofan. Og gera enn þótt hún sé komin á sjötugsaldur.