
Nú er ekkert við það að athuga að ríkisstjórn Íslands geri hlé á viðræðum við ESB. Hún hefur umboð til þess frá kjósendum síðan í alþingiskosningunum í apríl.
En stjórnarflokkarnir eru líka bundnir af loforðum um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort viðræður eigi að halda áfram.
Þetta sögðu talsmenn beggja flokka skýrt fyrir kosningarnar – í siðuðu ríki ætti ekki að vera hægt að ganga bak þeim orðum.
Nú eru utanríkisráðherrann og forsetinn í opinberri heimsókn í Þýskalandi. Vonandi detta þeir ekki – og þá einkum sá síðarnefndi – ekki í þá gryfju að halda því fram að meirihluti Íslendinga vilji slíta aðildarviðræðunum.
Því það er ekki satt. Endurteknar skoðanakannanir sýna að meirihluti vill halda viðræðunum áfram – og í dag birtist enn ein könnunin þar sem er komist að sömu niðurstöðu.