
„Er eitthvað að gerast í heiminum?“ spurði Kári mig í morgun.
Ég sagði honum frá Edward Snowden sem aleinn berst gegn eftirlitssamfélaginu og á að sæta handtöku fyrir vikið.
Frá auðhringnum Monsanto sem er að ná eignarhaldi á sáðkorni í heiminum.
Og frá vísindamanninum sem spáir því að jörðin verði varla lífvænleg vegna hita eftir tæpa öld.
Svo sagði ég honum að fara að bursta tennurnar.
„Það tekur því ekki,“ sagði barnið og hallaði sér aftur í rúminu.
Svo dæsti hann:
„Ég verð víst að verða stjórnmálamaður!“
„Er það?“
„En ég get ekki orðið forseti Bandaríkjanna.“
„Þú getur orðið forseti Íslands.“
Þá hló drengurinn tryllingslega.