
Þrátt fyrir tal um breytingar á utanríkisstefnu í nýjum stjórnarsáttmála er það staðreynd við erum áfram í EES. Og það segir ekki orð í stjórnarsáttmálunum um að sú aðild verði endurskoðuð.
Það þýðir að við erum áfram hluti af evrópskum markaði og ætlum okkur áfram að vera hluti af hinu fjórþætta frelsi innan Evrópu.
Frjálsum vöruviðskiptum, frjálsum þjónustuviðskiptum, frjálsum fjármagnsmarkaði og sameiginlegum vinnumarkaði.
Þetta eru meginreglurnar, þótt undantekningar séu á eins og varðandi landbúnaðarvörur. Og svo höfum við líka fjármagnshöft á Íslandi sem brjóta í bága við EES-samninginn. Stefnt er að því að þeim verði aflétt.
Þessi samningur er lang þýðingarmesti grundvöllur utanríkisstefnu okkar. Ekkert annað kemst í neina líkingu við hann.
Við seljum langmest af okkar fiskafurðum til Evrópu, ekkert bendir til að breyting verði þar á, langflestir ferðamennirnir sem koma til Íslands eru frá Evrópu. Hvað varðar álið, þá höfum við ekkert um það að segja hvert það er selt.
Það er hægt að tala mikið um að breyta áherslunum í utanríkisstefnunni og fara að leita að samstarfi í löndum Asíu. Þar er einkum horft til Kína og Indlands. Jú, þar geta verið ýmis tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. En langmestur hluti utanríkisviðskiptanna verður áfram við Evrópu í gegnum EES samninginn – sem auðvitað er hálfgildings aðild að ESB.
Við tökum jú upp lög og reglur þaðan. Þrátt fyrir andstöðu stjórnarflokkanna við ESB hefur ekkert komið fram um það breytist.
Við sjáum líka tortryggnina sem grípur um sig á Íslandi í hvert sinn sem er talað um Kína. Það virðist vera takmarkaður hluti þjóðarinnar sem deilir hrifningu forsetans á Kína. Viðbrögðin við áformum Huangs Nubo eru dæmi um þetta. Andstöðu við þau var að finna í öllum flokkum. Nýr fríverslunarsamningur við Kína er mjög takmarkaður, við erum ekki að fara að sjá stórkostleg umsvif Kínverja á Íslandi vegna hans.
Þannig að breytingarnar á utanríkisstefnunni verða væntanlega minni en margir telja.
Eins er það varðandi norðurslóðir. Íslendingar eru í ágætri stöðu sem eitt af átta ríkjum sem eiga aðild að Norðurheimskautsráðinu. Margir vilja komast þar inn sem áheyrnarfulltrúar, en Ísland er í innsta kjarnanum. Ísland á hins vegar ekkert tilkall til auðlindanna á Norðurheimskautinu, enda nær landhelgi okkar ekki svo langt.
Siglingar yfir Norðurheimskautið eru enn fjarlægar, og hvað varðar olíuna sem við vonumst til að dæla upp á Drekasvæðinu þá er það ekki að gerast í bráð – og líklega ekki fyrr en gengur meira á olíulindir annars staðar í veröldinni þar sem auðveldara er að sækja olíu.