
Mikið hefur verið rætt um framgöngu Geirs Haarde eftir úrskurð Landsdóms á mánudaginn.
Hann hafði talsverða samúð meðan hann sat þar á sakamannabekk – í réttarhöldum sem mörgum þóttu vafasöm – en það er eins og hún hafi gufað upp eftir að hann brást mjög reiður við dómnum. Það eru ekki síst Sjálfstæðismenn sem hafa haft áhyggjur af þessu. Valhöll sá jafnvel fyrir sér að geta notað dóminn til að efla veg flokksins, Bjarni Benediktsson sendi út herhvöt meðal flokksmanna vegna hans, en hefur í staðinn þurft að standa í að lágmarka skaðann.
Bjóst Geir kannski við algjörri sýknu?
Þótt Geir sé einungis dæmdur fyrir einn ákærulið eru mörg þung orð í úrskurði Landsdómsins um framgöngu hans – og þau ríma við margt sem kom fram í skýrslu Rannsóknarnefndar.
Geir fann sök hjá öllum öðrum en sjálfum sér, hann kallaði dóminn pólitískan og talaði um ofstækisfólk á Alþingi.
Maður hefur heyrt á mörgum sem hafa upplifað hið íslenska efnahagshrun, erfiðleikana og upplausnina eftir það, að betra hefði verið ef forsætisráðherrann fyrrverandi hefði sýnt aðeins meiri auðmýkt.
Hann hefði getað bent réttilega á að hann hafi verið sýknaður af flestum ákæruliðum, en um leið hefði hann getað játað að sér hefði orðið illilega á í messunni. Því það er dálítið erfitt að þræta fyrir heilt efnahagshrun.