
Það er mikið uppnám vegna dómsuppkvaðningar Landsdóms í gær.
Geir Haarde segir að draga eigi Steingrím J. Sigfússon fyrir dóm vegna sölu ríkiseigna 1990 – og þá mætti halda áfram, ætti kannski að dæma vegna sölunnar á SR-mjöli, vegna einkavæðingar bankanna og vegna Icesave?
Það mætti jafnvel halda því fram að þarna hafi opnast Pandóruaskja.
Sigurður Líndal segir að úrskurður landsdóms snúist ekki um formsatriði – málið sé alvarlegra en svo.
En það sem Geir er dæmdur fyrir hefur samt verið lenska í stjórnmálunum – þótt líklega hafi það aldrei birst í jafn alvarlegri mynd og árið 2008.
Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson voru ekki mikið í því að hafa samráð við ráðherra sína – eða hafa menn gleymt Íraksstríðinu?
Þegar Geir og Ingibjörg Sólrun tóku við fór allt í sama farveg – þau voru ekki að láta aðra ráðherra þvælast fyrir sér. Það sem flækti hins vegar málin var að Davíð Oddsson var enn á kreiki og taldi sig eiga að ráða. Þannig varð þetta fremur ógæfulegur ástarþríhyrningur.
Og svo eru það Jóhanna og Steingrímur – það verður ekki annað séð en að þau hafi sama háttinn á.
En í raun er þetta áfellisdómur yfir þessari tegund af stjórnsýslu. Hann var reyndar áður kominn fram í rannsóknarskýrslu Alþingis. Í ríki eins og okkar á ekki að þurfa að stjórna með leynipukri.