Það er mikið lof borið á framgöngu söngkonunnar Madonnu í hálfleik á Superbowl. Vissulega er Madonna flinkur skemmtikraftur, þótt afar fá lög eftir hana séu minnistæð. Þetta eru of veikar tónsmíðar til þess.
Það skiptir þó ekki máli, hjá Madonnu er það showið sem skiptir máli. Hæfileikarnir liggja fremur á sviði almannatengsla en tónlistar.
Madonna er upphafskona þeirrar stefnu sem ég kalla að syngja með rassinum.
Fjölmargar söngk0nur hafa fylgt í kjölfarið: Nýlegir fulltrúar eru Beyoncé, Rihanna og Britney Spears.
Þetta felur í sér að helst sé ekki hægt að syngja lag nema með því að vera í korseletti eða brjóstahaldi að ofan og netsokkabuxum að neðan – helst í g-streng.
Dillandi rassinum út í eitt.
Ég er ekki viss um að þetta sé góð þróun – ég get ekki trúað öðru en að mörgum þyki þetta leiðigjarnt og staðlað.
Hvar eru Ella Fitzgerald og Aretha Franklin, nú eða Janis Joplin – jú, við höfum söngkonuna Adele.
En hún er sögð vera alltof feit af tískulöggunum – og syngur með munninum en ekki rassinum. Hefur reyndar alvöru rödd.