fbpx
Fimmtudagur 29.maí 2025
Eyjan

Klíkurnar sem reyndu að mergsjúga landið – og tókst það næstum

Egill Helgason
Sunnudaginn 5. febrúar 2012 22:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástandið hér á Íslandi var hér fyrir hrun að það var vaðið í alla sjóði til að nýta þá í þágu fámenns hóps fjáraflamanna.

Þetta sést glöggt á skýrslunni um lífeyrissjóðina. Það voru ógurlegar fjárhæðir sem fóru í Baug og Exista.

Fé sparisjóðanna var hreinsað upp, það var gengið rösklega til verks í peningamarkaðssjóðunum, hlutabréfamarkaðurinn byggði á falsi – hvar sem maður ber niður rekst maður á sömu andlitin aftur og aftur. Þessir menn voru í stóru eignarhaldsfélögunum og höfðu náin klíkutengsl inn í bankana – og inn í lífeyrissjóði að því er virðist. Það var reynt að soga upp allt fjármagn í samfélaginu – stjórnvöld stóðu opinmynnt hjá og gerðu ekki neitt.

Marinó Gunnar Njálsson skrifaði blogggrein um darraðardansinn árin 2007 og 2008 fyrir fáum dögum. Hann lýsir honum með svofelldum orðum:

„Eftir að hafa lesið og hlustað á óteljandi fréttir, pistla, greinar, bækur og sögur, þá er ég þess handviss að bankarnir þrír, þ.e. Landsbanki Íslands, Kaupþing banki og Glitnir voru allir orðnir ógjaldfærir frá miðju sumri 2007 og fram í nóvember. 

Ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að Glitnir hafi fyrstur orðið ógjaldfær og það í júlí eða ágúst 2007.  Lárus Welding getur betur svarað því, hvenær það gerðist nákvæmlega, en hann lagði, samkvæmt mínum heimildarmanni, fyrir stjórn Glitnis tillögu í ágúst eða september 2007 um að farið yrði í brunaútsölu á eignum.  Bankinn yrði brotinn upp og allt selt sem hægt væri að koma í verð.  Þetta væri eina leiðin til að bjarga bankanum frá yfirvofandi þroti.  Bjarni Ármannsson ætti líka að geta staðfest þetta, þar sem ráðgjöfin kom frá honum.  Stjórn Glitnis og helstu eigendur höfnuðu þessu, þar sem með því yrði aðgangur þeirra að fjármagni verulega skertur og þeir sáu fram á að tapa eignum sínum.  Í staðinn fór í gang ótrúlega flétta, sem fólst í því að safna peningum inn í peningamarkaðssjóði bankans svo hægt væri að kaupa „ástarbréf“ af fyrirtækjum helstu eigenda bankans.  Hringt var gengdarlaust í fólk með innstæður á bankareikningum og nuðað í því að færa þá í peningamarkaðssjóðina.  Dæmi voru um að hringt hafi verið daglega í fólk, þar til það gafst upp á nuðinu.  Ég hef rætt við nokkra starfsmenn sem stóðu í þessu og líður engum þeirra vel með þetta.  Þeirra staða var að vinna vinnuna sína eða vera rekinn.  Ég held að samviska margra þeirra væri betri í dag, ef þeir hefðu valið síðari kostinn.

Varðandi Landsbanka Íslands, þá herma mínar heimildir að bankinn hafi verið orðinn ógjaldfær síðla hausts.  Raunar þarf engan heimildarmann til að sjá þetta út.  Um leið og krónan lækkaði haustið 2007 varð Landsbanki Íslands ógjaldfær.  Hér er um einfalt reikningsdæmi að ræða.  Bankinn safnaði háum upphæðum inn á Icesave reikningana í Bretlandi 2006 og 2007 meðan gengið var tiltölulega sterkt.  Nær undantekningarlaust fór þessi peningur beint inn á gjaldeyrismarkað og rann því sem íslenskar krónur inn á eignarhlið bankans.  Þegar krónan lækkaði haustið 2007, þá myndaðist verulegur halli á virði innstæðna í íslenskum krónum og eigna bankans til að greiða þessar innstæður.  Í staðinn fyrir að reyna að vinda ofan af þessu, þá fór LÍ sömu leið og Glitnir, þ.e. byrjaði að narra fólk til að flytja peningana sína úr öruggu skjóli, þar sem bankinn komst ekki í þá, yfir í áhættustöður, þar sem bankinn beindi þeim nær samstundis yfir til sérvalinna viðskiptavina.

Haustið 2007 var farið að sverfa verulega að lausafjárstöðu Kaupþings.  Þegar ljóst var hvert stefndi, þá sýnt að draga þurfti verulega úr útlánum og jafnvel skrúfa alveg fyrir þau.  Bankinn réð á þeirri stundu ekki við að greiða sínar eigin skuldir, að sögn heimildarmanns, og því var gripið til þessara ráða.  Þetta féll í grýttan jarðveg hjá helstu eigendum enda voru þeir allir sem einn komnir í mjög erfiða lausafjárstöðu.  Því var ákveðið að hlaupa undir bagga með elítunni, en skrúfa fyrir almenning.  Á fundi í lánadeild Kaupþings í nóvember 2007 voru gefin skýr fyrirmæli um að hætta útlánum til almennings (sjá færslu hjá Daða Rafnssyni á vefnum Economis Disaster Area).  Áfram var haldið að lána til elítunnar og fóru slíkar upphæðir út til þeirra, að líkast var sem menn byggjust ekki við að sól risi daginn eftir.  Mínir heimildarmenn segja alveg öruggt að ekki hafi verið gert ráð fyrir að þetta fé yrði endurgreitt.  Verið var að tæma bankann innan frá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar: Leigubílafarganið

Björn Jón skrifar: Leigubílafarganið
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Evrópuhreyfingin: Húsfyllir á aðalfundi – Magnús Árni tekur við formennsku af Jóni Steindóri

Evrópuhreyfingin: Húsfyllir á aðalfundi – Magnús Árni tekur við formennsku af Jóni Steindóri
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Ef Múhameð vill ekki fara til fjallsins verður fjallið að koma til Múhameðs

Svarthöfði skrifar: Ef Múhameð vill ekki fara til fjallsins verður fjallið að koma til Múhameðs
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Vinstri græn skamma Moggann – „Til að taka af öll tvímæli“

Vinstri græn skamma Moggann – „Til að taka af öll tvímæli“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingmaður Viðreisnar tekur sér leyfi og fer í áfengismeðferð – „Ég ætla að sigrast á þessum djöfli“

Þingmaður Viðreisnar tekur sér leyfi og fer í áfengismeðferð – „Ég ætla að sigrast á þessum djöfli“
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Þannig eru þessir hópar jafnvel til viðbótar afkastamiklir þegar kemur að skipulögðu smygli á fólki og mansali“

„Þannig eru þessir hópar jafnvel til viðbótar afkastamiklir þegar kemur að skipulögðu smygli á fólki og mansali“