Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi fréttamaður, skrifar grein í Fréttablaðið í dag. Hún telur að úrlausnarefni varðandi hrunið séu að litlu leyti lögfræðileg, heldur séu þau á sviði annarra fræðigreina.
Jú, það er rétt hjá henni, skýringa má leita í félagsvísindum, hagfræði og heimspeki.
En þegar maður fer inn í Bónus og stelur brauði er hann umsvifalaust kærður til lögreglu, þar er engin miskunn. Þá er það orðið lögfræðilegt úrlausnarefni.
Lögin eiga mjög auðvelt með að taka á slíku máli. En það má líka hugsa sér að fjallað sé um stöðu mannsins, framferði hans og tengslanet með aðferðum félagsvísinda, sögu eða sálfræði.
En þegar klíka manna stundar stórfelldar og kerfisbundnar falsanir og blekkingar til að komast yfir fjármagn annars fólks og setur heilt samfélag á hliðina – að þá eigi lögin ekki við. Það er dálítið langsótt kenning.