Kvikmyndin Listamaðurinn er frábært sjónarspil og vekur minningar frá fyrstu áratugum Hollywood.
Aðalkarlpersónan í myndinni er einhvers konar sambland af Douglas Fairbanks og John Gilbert. Gilbert var ein aðalstjarnan í Hollywood, en náði ekki að færa sig yfir í talmyndirnar þegar þær komu. Dó úr áfengisdrykkju 1934.
Það eru ýmis smáatriði sem maður tekur eftir. Til dæmis að kona á uppboði er klædd eins og leikkonan Zazu Pitts í ótrúlegu meistaraverki þögla tímans, Greed eftir Erich von Stroheim.
Undir lok þögla tímabilsins var kvikmyndalistin orðin býsna háþróuð og framsækin: Greed var magnum opus Stroheims, í upphaflegri útgáfu var myndin níu tímar að lengd!
Snillingurinn Murnau gerði Sunrise, King Vidor gerði The Crowd – í Evrópu gerði Fritz Lang Metropolis.
Þessar myndir eru mikil stórvirki – í raun tók við hnignunarskeið þegar talmyndirnar komu. Það var ekki fyrr en síðar að menn náðu slíkum tökum á hljóðupptökum að hægt var að skálda jafn stórt og síðustu meistarar þöglu myndanna gerðu.
Það er skemmtilegt að Listamaðurinn skuli rifja upp þennan tíma. Þarna er stór kafli í hinni heillandi sögu kvikmyndanna – sköpunarkrafturinn sem braust fram í Hollywood er ótrúlegur. Einhvers staðar sá ég honum líkt við Flórens á tíma endurreisnarinnar – það er í raun ekki fjarri lagi.
Úr Sunrise eftir F.W. Murnau, einu helsta meistaraverki þöglu myndanna. Hér er áhugaverður listi þar sem eru taldar upp 100 helstu þöglu myndirnar.