Við fjölskyldan förum stundum í Öskjuhlíð – ætli megi ekki segja að þetta sé uppáhalds útivistarsvæði okkar innan borgarmarkanna. Við förum þarna bæði gangandi og hjólandi.
Það er frábært að sjá hvernig trjágróðurinn þarna dafnar – þegar ég var smástrákur og fór þarna var það ekki nema kjarr.
Nú er þetta þéttur og fallegur skógur – jú, minnir dálítið á útlönd. Þarna var einstaklega fallegt núna í haust, ekki bara haustskógurinn – heldur líka þessi sérstaka skógarlykt.
Mér þykir reyndar sorglegt að stórbyggingar Háskólans í Reykjavík skuli hafa risið þarna með ógurlegu flæmi bílastæða. Það er sannkallað umhverfisslys. En þegar maður er kominn inn í skóginn sér maður ekki þessi mannvirki.
En hugmyndir um að fella tré þarna í stórum stíl vegna flugvallarins – æ, það er ekki skemmtilegt og getur ekki annað en valdið spjöllum á þessum skjólsæla unaðsreit.