Hrókeringar Jóhönnu og Steingríms eru pólitísk skáklist á háu stigi.
Fyrir áhugamenn um stjórnmálafléttur er gaman að fylgjast með þessu – maður veit svosem ekki hvort þetta breytir einhverju um stefnu stjórnarinnar, en það verða gerðar miklar kröfur til Steingríms í atvinnuvegaráðuneytinu. Það er stór yfirlýsing af hans hálfu að hann skuli setjast þangað inn.
Og eins og þegar djarft er teflt í skák geta úrslitin verið á báða bóga – það er stutt milli sigurs og taps.
Jón Bjarnason hrópar að hann sé settur út úr stjórninni vegna ESB, en allir vita að það er ekki satt, það eru einfaldlega mikil þreyta innan stjórnarliðsins með þennan sérlundaða karl. Hann hefur vissulega verið á móti ESB-viðræðunum, en að öðru leyti hefur hann litlu komið í verk.
Formaður Vinstri grænna fær að ráðuneyti atvinnuvega – það er nokkuð sem flokksmenn hjóta að fagna, eða að minnsta kosti þykjast fagna.
Það kemur kona inn í ríkisstjórnina, Oddný Harðardóttir, í sjálft fjármálaráðuneytið og Samfylkingin fær það í sinn hlut – það er nokkuð hjáróma ef óánægjufólk í Samfylkingu lætur eins og þetta séu sérlega vond býtti.
Eins og segir má vera að þetta springi allt í höndunum á Jóhönnu og Steingrími, en það er áhugavert að fylgjast með.