DV hefur verið að flytja fréttir af Kaupfélagi Skagfirðinga sem er mikið veldi heima í héraði, innan landbúnaðarkerfisins og í fjármálavafstri á landsvísu með einn helsta umsýslumann landsins, Þórólf Gíslason, í forsvari.
Þórólfur var stjórnarformaður hins dularfulla félags Giftar á árunum fyrir hrun. Eins og kunnugt er töpuðust miklir peningar í því félagi – og þeir voru ekki eign mannanna sem véluðu með þá. Blaðið hefur líka fjallað um fjárfestingafélag sem nefist Fell, en samkvæmt því vantar skýringar á 13 milljörðum króna sem hurfu úr félaginu.
Í DV er líka fjallað um aðstoðarkaupfélagsstjórann hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, sem greiddi sér út stórar fjárhæðir í arð úr eignarhaldsfélagi sínu eftir hrun. Má eiginlega segja að sé makalaust hvað stjórnendur þessa gamalgróna kaupfélags hafa verið orðnir umsvifamiklir.