Það hefur spunnist nokkur umræða um trúmál núna um jólin. Í grein Þorsteins Pálssonar sem birtist í Fréttablaðinu á aðfangadag er aðallega talað um kristna trú út frá því sem hentar samfélaginu – þetta er reyndar æ algengara í trúmálaumræðu. Rökin heyrast oft frá prestum – það hentar samfélaginu að aðhyllast kristni og það sem kallast kristið siðgæði.
Í heimi sem er mörgu leyti mannúðlegri, umburðarlyndari og friðsamlegri en áður er samt erfitt að halda því fram að siðgæði trúarinnar sé betra en annað – og það hentar ekkert endilega betur. Það hefur mikil kúgun, fátækt, ofbeldi, fordómar og fáfræði þrifist í skjóli trúarbragðanna.
Sannleikskrafan er víðs fjarri. Það er búið að gefa upp á bátinn svo margt sem áður var partur af boðun trúarinnar – helvíti, útskúfun, dómsdag – jú og himnaríki – og meira að segja heyrir maður æ sjaldnar talað um krossdauðann sem forsendu þess að vera kristinn. Meira að segja prestunum finnst þetta allt svo ósennilegt að þeir nefna það helst ekki lengur. Þannig erum við komin með mjög svona light útgáfu af þessu öllu.
Ibsen skrifaði frægt leikrit sem heitir Villiöndin. Það fjallar um sannleikann – og hvort hann geti verið hættulegur eða hvort það geti verið of mikið af honum. Þær eru magnaðar spurningarnar sem er spurt í þessu leikriti. Á einum stað er sagt að sannleikurinn geri menn frjálsa, en í leikriti Ibsens eyðileggur sannleikurinn fjölskyldu sem virðist nokkuð hamingjusöm á yfirborðinu. Getur verið betra að lifa í smá lygi fremur en að láta neyða sannleikanum upp á sig.
Það sem við stöndum andspænis núna er geimur með 100 milljörðum vetrarbrauta – í vetrarbrautinni okkar er sagt að séu 200 milljarðar stjarna. Það er jafnvel rætt um að til séu margir heimar, fjölheimar. Það er í raun æsispennandi að fylgjast með þekkingarleitinni sem fer fram í geimvísindunum og reyndar ekki síður í lífvísindunum og vísindunum sem fjalla um smæstu eindir veraldarinnar.
En hún rímar illa við gamlar hugmyndir um heiminn.
Það er erfitt að samsama það að maðurinn sé miðlægur í veröldinni við þetta ótrúlega stóra samhengi – eins og trúin gengur út á. Að það sé guð sem hafi skapað þetta allt, fyrir okkur mennina og síðan getið son – í mannsmynd. Heimsmynd trúarinnar verður til þegar menn héldu enn að jörðin væri flöt og stjörnurnar væru eitthvert dinglumdangl í kringum hana.
En svo er auðvitað hægt að líta framhjá þessu og halda áfram að kenna það sem mörgum hefur þótt henta vel til þessa. Guðrækni og góða siði – eins og það hefur verið kallað. Aðrir myndu kannski telja að nær væri að efla kennslu í vísindum í skólakerfinu – og máski líka í almennri siðfræði.