Frétt Haaretz um gyðinga á Íslandi virðist mestanpart vera bull.
Þarna er Dorrit Moussaief forsetafrú meðal annars borið á brýn að hún vilji ekki stunda samkomur hjá gyðingum á Íslandi.
En Dorrit iðkar að því ég best veit ekki gyðingatrú.
Þarna er sagt að Hope Knútsson, sem hefur verið framarlega í samtökunum Siðmennt, sem er félagsskapur húmanista, sé leiðtogi í gyðingasamfélaginu á Ísland. Sjálf segir hún að í greininni sé fullt af rangfærslum.
Íslendingar hafa mjög litla reynslu af gyðingum og vita mest lítið um þá. Það er fráleitt að ætla að hér kraumi undir gyðingahatur.
Hins vegar er víða í heiminum nokkur andúð á fólki sem kemur frá Mið-Austurlöndum. Það er vegna pólitískra aðstæðna þar. Margir eru mjög ósáttir við Ísraela vegna þess hvernig þeir koma fram við Palestínumenn.
En að rugla því saman við gyðingahatur, andsemítisma, er eiginlega ekki annað en skálkaskjól, lítilmótlegt áróðursbragð – og eiginlega móðgun við allt það fólk sem hefur misst lífið og þjáðst í ofsóknum gegn gyðingum.
Eins hafa múslimar frá þessum heimshluta þurft að sæta mikilli tortryggni þegar þeir eru bendlaðir en masse við hryðjuverk.