Ögmundur Jónasson er dæmi um stjórnmálamann sem leiðist að sitja á friðarstóli. Ef fer að verða of rólegt í kringum Ögmund grípur hann mikið óþol.
Nú rétt fyrir jól vantar smá fútt og þá segir Ögmundur að aðildarviðræðurnar við ESB – sem hann samþykkti og ber ábyrgð á – séu rugl.
Það eru að koma áramót og þá verður væntanlega ýmislegt rifjað upp sem margir telja rugl á Íslandi – sumt af því skrifast á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem Ögmundur situr í.
Þar má nefna stanslausan fólksflótta.
Linnulausar skattahækkanir.
Atvinnuleysi.
Þá staðreynd að kaup á Íslandi er komið langt aftur úr nágrannalöndunum.
Gjaldeyrishöft.
Viðvarandi lágt gengi krónunnar.
Stéttaskiptinguna sem virðist vera að gróa fast inn í íslenskt samfélag.
Þá mikla áherslu sem hefur verið lögð á endurreisn og velferð fjármálastofnana.
Hnignun heilbrigðiskerfisins vegna fjárskorts og brotthvarfs starfsfólks.
Vaxtaokrið.
Seinaganginn í að ráða bót á skuldaáþján einstaklinga, heimila og fyrirtækja.
Skort á fjárfestingu.
Og ríkisstjórn sem virðist ekki geta komist að neinni niðurstöðu hvað varðar orkunýtingu né heldur helstu atvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginn.