Það er deilt um það hvort ríkisstjórnin sé hæf um að reka Icesave-málið fyrir erlendum dómstóli.
Þeir sem hafa starfað í hópunum InDefence og Advice hafa efasemdir um það – af ráðherrum treysta þeir Árna Páli Árnasyni best.
Það byggir á frammistöðu Árna síðan hann tók við málinu eftir síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu, en líka, hygg ég, á samtölum manna úr þessum hópi við ráðherrann.
Þeir tortryggja Steingrím J. Sigfússon mest. Steingrími hafa verið feikilega mislagðar hendur í þessu máli, en það er kannski dálítið hæpin útlegging að hann vilji beinlínis að það tapist svo hann komist út úr skugganum sem Icesave varpar á ráðherraferil hans.
Hins vegar er líklegt að í flestum löndum hefði Steingrímur þurft að segja af sér vegna Icesave. Hann tapaði ekki bara einni þjóðaratkvæðagreiðslu með miklum mun, heldur tveimur. Vilji kjósenda var býsna skýr. Í bók Sigurðar Más Jónssonar sem nefnist Afleikur aldarinnar má lesa um hversu illa var haldið á málinu lengi framan af – það er þörf upprifjun.