Ég rifjaði um daginn upp þegar ég var eitt sinn á fundi þar sem Davíð Oddsson talaði um byggingu Perlunnar.
Þá var Davíð borgarstjóri, fundurinn var minnir mig hjá Sjálfstæðismönnum í Veturbæ og haldinn í KR-heimilinu,
Davíð var spurður út í byggingu Perlunnar – hví væri verið að byggja þetta hús – og hann svaraði:
„Það er fullt af fólki sem veit ekki hvað það á af sér að gera á sunnudögum.“
Þetta var dálítið fyndið – merkingin var sú að þetta fólk gæti þá farið í bíltúr í Perluna, milli þess að það færi til dæmis í Eden í Hveragerði.
Samt var eitthvað bogið við þetta, það var aldrei búið að pæla í því til hvers Perlan væri eiginlega.
Ég man að einn borgarfulltrúi þessa tíma glímdi við þessa spurningu, svarið var:
„Perlan er gjöf Hitaveitunnar til Reykvíkinga.“
Síðan hefur ýmislegt verið í Perlunni, stóri myndbandamarkaðurinn, árlegur bókamarkaður, dapurleg kaffitería, veitingastaður sem hefur átt í brösum. Um tíma voru haldnar þarna nýársveislur þar sem voru meðal gesta Davíð og vinir hans. Þetta var eins og heimavöllur þeirra. Þessar veislur duttu þó uppfyrir líka.
Jú, ferðamenn koma þarna og skoða útsýnið – og það er náttúrlega ágætt – en húsið sjálft er eins og minnisvarði um ekki neitt.