Maður er eiginlega ekki alveg viss hvort Norður-Kórea, þetta furðulega alræðisríki, sé til.
Þegar horft er á heiminn utan úr geimi að næturþeli sést eiginlega bara svartur blettur þar sem landið á að vera, löndin í kring eru raflýst, en ekki Norður-Kórea.
Yfir öllum fréttum af Norður-Kóreu er sérstæður óraunveruleikablær.
Nú er sagt að Kim Jong-Il, sonur Kims Il-sung, sé dáinn. Arftaki hans mun vera sonur hans Kim Jong-un. Þó er talið að einhver valdabarátta gæti farið fram innan hersins og forystu kommúnistaflokksins.
Liklega mun fólk halda áfram að svelta í þessu einu af síðustu kommúnistaríkjum heimsins, það heldur áfram að ota kjarnorkuvopnum, heilaþvotturinn heldur áfram og kúgunin.
En einhvern veginn finnst manni samt að þetta geti ekki varað að eilífu – en kúgunin þarna virðist hafa náð einhverju hástigi sem hefur vart þekkst áður, formyrkvan sem á fáar hliðstæður, þar sem kúgunin er eins og runnin í merg og bein og er orðin eins og annað eðli íbúanna. Þar sem allir eru alltaf á verði, gagnvart öðru fólki og líka gagnvart sjálfum sér.
Gervihnattamynd af Norður-Kóreu og Suður-Kóreu um nótt.