Það er verið að skrifa heilmikið um kommúnismann á Íslandi. Mest af því kemur frá hægrimönnum, sem eru mærðir á þessum vef.
Þarna er til dæmis vitnað í skrif Styrmis Gunnarssonar sem skrifaði í Moggann að sósíalistar og kommúnistar hafi verið erindrekar erlends valds.
Við skulum ekki gera of lítið úr því. Kommúnistar aðhylltust aðra af hinum hryllilegu helstefnum 20. aldar – og það er merkilegt hvað margir héldu lengi í átrúnaðinn eða þögðu yfir hryllingnum. Og það er merkilegt hvað menn eru ófúsir að horfast í augu við þetta.
Hins vegar hafa menn seilst full langt í að klína kommastimpli á alla verkalýðs- og stéttabaráttu á Íslandi. Það er ansi djörf kenning að henni hafi verið stjórnað af Moskvuagentum.
Þvi má heldur ekki gleyma að þeir voru fleiri sem gengu erinda erlends valds. Íslenska lýðveldið er í raun stofnað undir verndarvæng Bandaríkjanna – það er staðreynd sem hefur furðu lítið verið rætt um, enda passar hún ekki inn í söguna um frelsissókn þjóðarinnar. Íslendingar fylgdu svo Bandaríkjunum í einu og öllu fram yfir síðustu aldamót; íslenskir stjórnmálamenn voru mjög handgengnir Bandaríkjunum, þáðu boðsferðir þangað, voru sífellt að herja út úr þeim fé og notuðu Bandaríkin líka í pólitískri baráttu eins og sést á því hvernig höfundarnafn Halldórs Laxness var í raun eyðilagt í Bandaríkjunum.