Perlan er ljómandi falleg bygging þar sem hún trónir uppi á Öskjuhlíð.
En yfir henni hefur samt alltaf verið blær tilgangsleysis.
Ég man að ég var á fundi einhvern tíma fyrir 1990 þar sem Perlan var rædd.
Þá sagði þáverandi borgarstjóri, Davíð Oddsson, að það væri fullt af fólki sem vissi ekki hvað það ætti að gera á sunnudögum.
Merkingin var sú að það gæti farið í Perluna.
En þar hefur samt aldrei verið neitt nema veitingahúsið sem snýst, frekar dapurleg kaffitería, bóka- og myndbandamarkaður – jú, og dálitið víkingasafn síðustu árin.
Nú er komið einhvers konar kauptilboð í Perluna, en það virðist fela í sér að breytingar verði á húsakostinum og starfseminni. Einhverjir setja sig væntanlega upp á móti því – en í óbreyttri mynd er Perlan varla arðbær fjárfesting og kaupverðið gæti ekki verið hátt.
Það þarf nefnilega að að setja eitthvert innihald í dæmið.