Þegar talað er um Dani sem versla á Íslandi hugsa menn yfirleitt um einokunarkaupmennina. Löngu síðar spratt upp sú geðveikislega hugmynd, sem er tjáð í Íslandsklukkunni, að Kaupmannahöfn hafi á þeim tíma verið byggð á auði Íslands.
En síðar voru hér Danir sem héldu uppi verslun – og það er talinn einn mesti blómatími verslunar á Íslandi.
Þetta var undir lok nítjándu aldar og fyrstu árin á þeirri tuttugustu, þeim tíma sem kallast á frönsku la belle epoque.
Þá voru hér verslanir á borð við Thomsens-magasín, sem var í mörgum deildum – þar var matvörudeild, víndeild, vindladeild og skódeild.
Guðjón Friðriksson lýsir þessari verslun og fleiri í Sögu Reykjavíkur sem hann skráði fyrir margt löngu.
Svo urðu Íslendingar ógn þjóðernissinnaðir, höft náðu yfirhöndinni – dönsku kaupmennirnir flæmdust burt og verslunin gekk í gegnum langt niðurlægingarskeið.
Nú eru Danir búnir að kaupa Húsasmiðjuna – það skiptir kannski ekki miklu máli, það er tæplega mikið sjálfstæðismál hver á þetta fyrirtæki, en þó er aldrei að vita hvað mönnum dettur í hug.
Á þessari mynd má sjá hvar Thomsens-magasíns stóð við Lækjartorg, á mesta veldistímanum tilheyrðu fleiri hús á svæðinu versluninni. Seinna var Hótel Hekla í húsinu, en það var rifið 1961.