Það er ýmislegt á seyði fyrir jólin, þetta er yfirleitt heldur skemmtilegur tími – sérstaklega ef maður á góða fjölskyldu.
En það er hart í búi hjá smáfuglum og líka þeim sem stærri eru. Nú hefur verið snjór á jörð síðan í lok nóvember – það er óvenju langur tími. Við Reykjavíkurtjörn virðist ríkja nokkuð hungur – flokkar af gæsum fara um bæinn í leit að æti. Það er skemmtilegt að sjá þær ganga eftir Lækjargötunni og alla leið út í Austurstræti, en þær geta verið nokkuð ágengar.
Við Kári fórum með tvo stóra poka handa gæsunum í fyrradag og áttum eiginlega fótum okkar fjör að launa. Það voru ekki færri en hundrað gæsir sem króuðu okkur af við gamla Iðnaðarmannahúsið.
Svo er ýmislegt umstang í kringum jólin.
Við keyptum fyrir nokkrum árum lítið jólafjárhús í Póllandi og höfum sett það upp á hverjum jólum. Nú tókum við fjárhúsið fram enn einu sinni og þá kemur í ljós að sjálft Jesúbarnið er týnt.
Hvert skyldi það hafa farið?
Er hægt að hafa jólafjárhús án Jesúbarns – eða hvernig er hægt að redda nýju Jesúbarni?
Maður getur líka verið heldur utan við sig á þessum tíma.
Fyrir fáum dögum fór ég út í Bankastræti. Hitti þar konu sem brosti til mín og ég ákvað á staðnum að þetta væri kona sem ég hefði verið í sveit hjá í gamla daga – í kringum 1970.
Aldurslega held ég að þetta hafi eiginlega ekki getað passað.
En hvað um það, ég heilsaði konunni með ógurlegum virktum og spurði frétta.
Þá kom í ljós að þetta var erlend ferðakona.