Hannes Pétursson skáld varð áttræður í gær.
Það er engin ástæða til að tala um Hannes í fortíð, hann var að senda frá sér feikisterka bók, minningar úr Skagafirði sem nefnast Jarðlag í tímanum.
Þetta er kannski sú bók sem er þægilegast að hverfa inn í ef maður vill komast undan hávaða dægurumræðunnar.
Ég hef verið mikill aðdáandi Hannesar frá því ég var unglingur. Ég tók við hann viðtal um daginn og óttaðist að ég bæri svo mikla virðingu fyrir honum að ég kæmi ekki upp orði.
Við erum reyndar nágrannar á sinn hátt, Hannes bjó á Ásvallagötu 9 eftir að hann flutti í bæinn til að fara í skóla – ég er alinn upp á Ásvallagötu 13.
Í viðtalinu sem ég tók við Hannes í Kiljunni vorum við staddir í gamla hverfinu okkar – við hinn fallega gamla kirkjugarð.
Manni finnst oft makalaust hvernig alvöru skáld komast til þroska. Sum þeirra eru á unga aldri farin að yrkja kvæði sem manni finnst að ættu að vera langt fyrir ofan skilning og getu ungmenna. Hannes er nítjan ára þegar hann yrkir kvæðið fræga þar sem kemur fyrir ljóðlínan „bláir eru dalir þínir byggð mín í norðrinu“.
Og hann er ekki nema 23 ára þegar Kvæðabókin kemur út, ein helsta ljóðabók á íslensku. Þar er til að mynda hið fræga kvæði um Kóperníkus – ég finn ennþá sama hrifningarhrollinn streyma um mig þegar ég les það nú og þegar ég var unglingur og las það fyrst:
Á kvöldin undir kveiktu tungli og stjörnum
koma þeir heim af ökrunum. Lágan óm
ber vindur frá klukku er álútu höfði og hljóðir
halda þeir stíginn hjá veðruðum róðukrossi
með feðranna gömlu, gnúðu amboð á herðum
en glaðir að allt skuli bundið svo föstum skorðum:
sjá, þarna tungl og vindar, hér vegur og blóm.
Þeir vita’ ekki að hann sem heilsar þeim oft á daginn
hjó þessa jörð af feyskinni rót – og henti
sem litlum steini langt út í myrkur og tóm.