Í Kiljunni í kvöld kynnum niðurstöður í vali bóksala á bestu bókum þessarar vertíðar. Bóksalaverðlaununum hefur verið úthlutað síðustu tólf ár – og skiptast þau í nokkra flokka.
Við fjöllum við um ævisögu Vilborgar Dagbjartsdóttur sem nefnist Úr þagnarhyl. Þar segir Vilborg frá gleði og sorgum á merkilegri ævi, missi systkina, þegar hún var send að heiman barn, kennslu við Austurbæjarskólann, því að vera einstæð móðir á sjötta áratugnum, kvenréttindabaráttu, pólitísku starfi, skáldskap og sambúðinni við Þorgeir Þorgeirson.
Herman Lindqvist er Svíi og mikill metsöluhöfundur. Bókaflokkur hans um sögu Svíþjóðar seldist í ellefu milljón bindum og nú er komin út á íslensku annað metsöluverk eftir hann – bókin fjallar um sjálfan Napóleon Bonaparte, keisara Frakklands, manninn sem dreifði hugsjónum byltingarinnar en sveik þær svo á altari metnaðar síns. Lindqvist er gestur í þættinum, en hann var áður stríðsfréttaritari – var til dæmis handtekinn af Rauðu khmerunum þegar þeir lögðu undir sig Kambódíu.
Hrafn Jökulsson segir frá útgáfu á safni með greinum eftir frænda hans, Braga Kristjónsson – en þar er einnig að finna valin atriði úr Kiljunni á diski.
Kolbrún Bergþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson ræða um þrjár bækur: Landnám, ævisögu Gunnars Gunnarssonar, eftir Jón Yngva Jóhannsson, Ingibjörgu eftir Margréti Gunnarsdóttur, en hún fjallar um Ingibjörgu Einarsdóttur, eiginkonu Jóns Sigurðssonar forseta, og skáldsöguna Gestakomur í Sauðlauksdal eftir Sölva Björn Sigurðsson.
Og Bragi sjálfur er á sínum stað í lok þáttarins.